154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[18:06]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Það hefur oft verið voðalega erfitt að fá svör frá stjórnsýslunni, stjórnvöldum. Við höfum verið að reyna að spyrja hér undanfarna daga út í það sem ríkisstjórnin er að spara með tíu mánaða seinkun á uppfærslu laga um almannatryggingar fyrir öryrkja. Staðan er sú að það var búið að lofa þessu og gera ráð fyrir þessum fjármunum fyrir næstu áramót, ekki tíu mánuðum seinna. Seinkun um tíu mánuði eru í raun glataðar tekjur fyrir þann hóp sem bjóst við að fá lagfæringu á stöðu sinni fyrr. Fjárhagsstaða fatlaðs fólks var gríðarlega slæm, samkvæmt könnun Vörðu árið 2023, á öllum mælikvörðum. Þrír fjórðu eiga mjög erfitt eða nokkuð erfitt með að ná endum saman. Tæplega sjö af hverjum tíu geta ekki mætt óvæntum útgjöldum. Meira en helmingur metur fjárhagsstöðu sína nokkuð verri eða mun verri en fyrir ári og þriðjungur býr við efnislegan skort eða verulegan efnislegan skort. Meira en helmingur getur ekki farið á menningarviðburði, kaffihús eða í bíó með vinum eða keypt sér nauðsynlegan klæðnað eða borðað eins næringarríkan mat og þau vilja. Og nú þurfa þau að bíða í tíu mánuði í viðbót eftir einhvers konar réttlæti, ef við grípum til þess frasa sem er viðeigandi í þessu tilviki. Getur hæstv. ráðherra komið hingað upp og útskýrt það fyrir okkur af hverju þessi hópur þarf að bíða í tíu mánuði í viðbót?